Starfslok Eplica kerfisins í árslok 2024

Nýsmíði og þróun í Eplica vefumsjónarkerfinu hefur verið formlega hætt af hálfu Hugsmiðjunnar. Kerfið verður þjónustað áfram næstu misseri, en gengið er út frá því að öllum rekstri Eplica vefja af hálfu Hugsmiðjunnar verði hætt í lok janúar 2025.

 

Við leggjum áherslu á að aðstoða þá viðskiptavini okkar sem eru með Eplica vefi í rekstri að færa vefi sína í nýtt rekstrarumhverfi. Hafið endilega samband við okkur (hjalp@hugsmidjan.is) ef þið viljið fá ráðgjöf varðandi næstu skref í því ferli.

Við getum ráðlagt ykkur varðandi möguleika á nýsmíði í nýrra tækniumhverfi eða liðsinnt ykkur við yfirfærslu í vefkerfi þjónustuð af öðrum þjónustuaðilum. Það tekur tíma að innleiða nýjar veflausnir og við hvetjum ykkur því til að hafa samband sem fyrst .

Af þessari breytingu leiðir meðal annars:

  • Við ráðleggjum viðskiptavinum að láta ekki vinna t.d. útlitsuppfærslur eða víðtækar breytingar á Eplica vefjum, enda fyrirséð að það yrði skammlíf fjárfesting.

  • Vinna við allar breytingabeiðnir verður gjaldfærð samkvæmt verðskrá, óháð því hvort um er að ræða breytingar á sérvirkni eða betrumbætur á grunnkerfinu.

  • Engar virkninýjungar verða þróaðar innan Eplica grunnkerfisins, en áfram verður fylgst með mögulegum öryggisáskorunum og brugðist við þeim eftir því sem við á.

  • Þeim viðskiptavinum sem sjálfir hýsa vefi sína er í sjálfsvald sett að reka þá áfram eftir áramótin 2024/2025, en við getum ekki ábyrgst að hægt verði að sinna verkbeiðnum eftir þá dagsetningu.

Ástæður þess að Hugsmiðjan hættir rekstri Eplica kerfisins, eftir rúmlega 20 ár, eru fyrst og fremst þær miklu breytingar sem orðið hafa í hugbúnaðarþróun og tækniumhverfi á undanförnum árum. Undanfarin ár hafa allir nýir vefir Hugsmiðjunnar verið unnir í öðrum tæknilausnum og margir okkar viðskiptavina hafa þegar fært vefi sína úr Eplica kerfinu í nýrri tækninálganir.

Hvað gerist í árslok 2024?

Við göngum út frá því að við lok janúar 2025 verði engir Eplica vefir lengur í rekstri í okkar hýsingarumhverfi. Þeir vefir sem nú eru reknir í Eplica kerfinu verði því á þeim tímapunkti komnir í annað tækniumhverfi ef ætlunin er að viðhalda þeim. 

Annar möguleiki fyrir vefi sem vilji er fyrir að halda sem sögulegum heimildum, er að gera þá „statíska“ með því að láta birtingu þeirra byggja á textaskrám á vefþjóni í stað vefkerfis og gagnagrunns.

Hver eru mín næstu skref?

Ef þú vilt ræða mögulegt framtíðarfyrirkomulag eða hefur spurningar um hvaða áhrif þetta hefur á núverandi veflausnir hvetjum við þig til að bóka samtal við ráðgjafa. Sendu okkur endilega póst á netfangið hjalp@hugsmidjan.is eða hafðu samband í síma 5 500 900 og fáðu samband við ráðgjafa.